Eins og alkunna er verður mótið nú haldið í áttunda sinn og eins og undanfarin ár verður leikið á eina viðurkennda keppnissvæði landsins, í Tunguskógi í Skutulsfirði.

Dagskrá Mýrarboltans 2013 er hægt að sjá hér. Mótið hefst á föstudagskvöldinu með skráningarkvöldi en þá verður gengið frá skráningu og armbönd og keppnisgögn afhent. Á laugardagsmorgni hefst svo spilamennskan. Búast má við að leikið verði fram undir kvöldmat. Á fyrri leikdegi verður leikið í riðlum en á sunnudag hefst útslátturinn.

Hefð er fyrir lokahófi á sunnudagskvöldinu og verður sú hefð síður en svo rofin í ár. Að þessu sinni verður ekki matur innifalinn í lokahófinu. Verðlaun eru afhent fyrir leiki dagsins og hápunktarnir rifjaðir upp. Undir miðnætti stígur Retro Stefson á svið og leikur fram á rauða nótt. Lokahófið og ballið er innifalið í þátttökugjaldi, en þeir sem eru ekki þátttakendur geta einnig keypt sig inn á ballið.

Umgjörð mótsins verður umfram allt skemmtileg eins og alltaf. Leikið verður á átta keppnisvöllum í Tungudal, en þar að auki stendur til að bjóða keppendum og áhangendum upp á ýmiskonar afþreyingu meðan á móti stendur.

Ekki má gleyma drulluteygjunni sem keppt hefur verið í frá árinu 2007. Þar að auki er á hverju ári keppt í nýrri sérgrein, en fyrri ár hefur verið keppt í drullukonuburði, kajakdrætti og fleiru.