Fyrir mótið 2011 var kynntur til sögunnar Mýrarboltabikarinn.

Bikarinn var hannaður og smíðaður af miklum hagleiksmönnum á Ísafirði og afhjúpaður við hátíðlega athöfn. Mikil leynd hvíldi yfir hönnun og smíði gripsins fyrirfram.

Mannhæðar hár

Aðskilnaðarsamtök Vestfjarða

Aðskilnaðarsamtök Vestfjarða hömpuðu Mýrarboltabikarnum árið 2011.

Bikarinn er mannhæðar hár, eða 170 cm. Og það úr gegnheilu áli frá Reyðarfirði, rústfríu og tvízínkuðu og hvað þetta heitir alltsaman. Hann hefur ekki verið veginn á vottaðri vog, en fróðustu menn giska á að hann sé þetta á bilinu 70–90 kg, og þar með að minnsta kosti tveggja manna tak.

Í einriti

Bikarinn er í einriti — fyrir kvenna- og karladeild saman. Valið stendur milli sigurvegara í karladeild og sigurvegara í kvennadeild. Það lið sem hlýtur bikarinn skv. neðangreindum reglum hlýtur titilinn „Mýrarboltameistari“. Úthlutunin fer eftir eftirfarandi reglum:

  1. Besta vinningshlutfallið. Fjöldi unninna leikja deilt með fjölda leikinna leikja.
  2. Besta markahlutfallið. Fjöldi marka skoruð mínus fjöldi marka sem liðið fær á sig, allt deilt með fjölda leikinna leikja.
  3. Skoruð mörk deilt með fjölda leikinna leikja.
  4. Hlutkesti.

Bikarinn er farandbikar.