Vellirnir

Vellirnir verða átta talsins í ár. Þeir eru merktir númerum frá 1-8, eins flókið og það hljómar. Reynt er að hafa þá sem jafnasta að drulluleika, en það er ekki alltaf hægt; drullan er óútreiknanleg. Þessvegna reynum við líka að láta lið ekki spila alla leiki á sama velli, og að sjálfsögðu er skipt um vallarhelming í hálfleik.

Eins og þeir vita sem hafa spilað á mótinu áður eru vellir 3 og 4 nokkuð jafnir að skítleika. Vellir 5 og 6 voru í þurrari kantinum í fyrra, en úr því verður bætt í ár. Vellir 7 og 8 eru nýjir og eiga eftir að sanna sig, en væntingar eru miklar. Völlur 2 lumar á einu og einu grjóti en reynt er að fjarlægja þau jafn óðum og þau finnast. Völlur 1, „Algleypir“ eins og hann er kallaður, er sá svívirðilegasti forarpyttur sem fundist hefur á jarðríki og skítlegt eðli hans er óumdeilt. Hann hefur gleypt heilu traktorana og aðrar stórvirkar vinnuvélar sem hafa reynt að plægja hann. Enginn veit hversu djúp drullan er, en sögur segja að sjálfur Djöfullinn, sá sótsvarti saurstampur, standi undir honum og reyni að soga allt niður í Neðra sem í leðjuna kemur.

Klósett

Keppendur sem ekki hafa enn keppt, og áhorfendur, geta notað klósett tjaldsvæðisins. Gæsla verður við síðarnefndu klósettin til að tryggja að einungis hreint fólk noti klósettin. Strákum og stelpum er bent á að sjálfsögðu má míga útí móa, og út í Tunguá sem rennur niður dalinn, en það verður þá að gerast fyrir neðan baðpollinn.
Ferðakamrar verða við innra tjaldsvæðið.

Þvottur

Tunguá rennur niður dalinn og þar er hægt að baða sig. Mjólkustöðin hefur alltaf verið svo góð að redda fullum tankbíl af heitu vatni. Það er hægt að nota til að skola sig og fá smá yl í kroppinn, en við mælumst til hófstilltrar notkunar.

Íslensk-ameríska ætlar að aðstoða okkur í ár og í samstarfi við fyrirtækið verður leigður sturtugámur af Gámastólpa sem í eru 18 sturtur. Fólk er beðið um að skola fyrst af sér í ánni og fullkomna svo verkið í gámnum.

Þvottur

Heita vatnið úr mjólkurbílnum gleður.

Bílastæði

Bílastæði eru takmörkuð. Tjaldsvæðisgestum er heimilt að leggja inni á tjaldsvæði. Líklega verður skutlrúta í boði frá bílastæði inn að keppnissvæði, en það á eftir að koma nákvæmlega í ljós.

Veitingar

Veitingar verða til sölu, bæði í fljótandi og föstu formi. Og sveimér ef þær eru ekki bæði til í heitu og köldu. Hvað það verður veit nú enginn enn, en hitt er víst að í ár verða veitingar í boði langt fram á nótt svo að svangir ballgestir geta fengið sér sveitt miðnætursnarl fyrir svefninn.

Áhorfendur

Áhorfendur eru velkomnir. Komið endilega labbandi síðasta spölinn til að fylla ekki bílastæðin. Og munið að það er líklegt að maður óhreinkist nokkuð af því að rekast í foruga þátttakendur eða fá bolta beint í smettið. Bannað er að móðgast þótt það gerist.

Sjá einnig Spurt og svarað.